UM MIG
Ég heiti Sigríður Lára Stefánsdóttir og er 24 ára gömul, fædd og uppalin á Sauðárkróki. Mín helstu áhugamál eru ferðalög, ljósmyndun, list, hönnun, köfun, útivist og hreyfing.
Ég kláraði stúdent í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra árið 2016 og vissi ekki hvað mig langaði að læra næst. Ég flutti því til Kosta Ríka eftir sumarið og fór í spænsku skóla og sjálfboðaliða starf með villtum dýrum. Þaðan fór ég svo í mína fyrstu heimsreisu um Asíu og varð alveg heilluð af ferðalögum. Við tók tímabil þar sem ég kom heim til að safna pening og fór í aðra reisu til skiptis.
Á ferðalögum mínum hitti ég stelpu sem starfaði sem grafískur hönnuður og ferðaðist um heiminn á sama tíma. Það veitti mér mikinn innblástur því það hefur alltaf heillað mig að geta starfað hvar sem er í heiminum og að geta sameinað það við áhugamál mín tengd list og hönnun varð til þess að ég ákvað að skrá mig í Grafíska miðlun og sé alls ekki eftir því.